HÚS Í KRÓKNUM
Myndir © Nanne Springer
KRÓKURINN
Húsið er staðsett í Ísafjarðarbæ, sem er 3000 manna byggðarkjarni við Skutulsfjörð á norðvesturhluta Íslands. Á Ísafirði verða veturnir dimmir þegar sólin hverfur á bak við fjöllin í tvo mánuði um áramótin. Oft stormasamir og snjóþungir. Sumrin eru björt og hægviðrasöm.
Ísafjörður er einn af elstu byggðakjörnum á Íslandi, þó að elstu húsin séu ekki nema um 250 ára gömul. Húsið okkar stendur þar sem áður stóð þyrping húsa í flæðarmálinu. Fyrir framan húsin var gamalt bátalægi og góðar netalagnir, og uppi í hlíðinni fyrir ofan okkur og út með firðinum standa enn fiskþurrkunarhjallar sem veittu okkur mikinn innblástur við byggingu hússins. Mikið fuglalíf og fiskigengd er enn með ströndinni, og stöku sinnum skjóta selir upp kollinum við stofugluggann.
Húsið er reist á kjallara gamals húss sem við bjuggum í á meðan á hönnun þess stóð. Það var lengi í hönnun, og átti framan af einungis að verða að viðbyggingu.
Það er hannað á miklum umbrotatímum, bæði í okkar lífi sem og á alþjóðavetvangi. Við höfðum flutt búslóðina okkar nokkrum sinnum í röð í Kaupmannahöfn og enduðum á Íslandi í miðri fjármálahruni. Óvissan vegna hlýnunar jarðar og gengdarlauss ágangs á auðlindir var að verða flestum ljós, og útþensla borgarsamfélaga og fullkomin ósjálfbærni þeirra í lífríkinu ollu sífellt meiri heilabrotum.
Þessir ytri þættir, ásamt ýmsum persónulegum þáttum gerðu að hönnun hússins okkar snerist öðrum þræði um að stokka upp, sannreyna og endurskilgreina okkar eigin gildi og aðferðir við að lifa lífinu dags daglega. Án þess þó að umhugsunarlaust vilja kasta neinu á glæ.
(Reboot but not reset) Endurræsing og endurröðun, niðurskurður og uppfærslur. Hönnunin gekk út á að búa um okkur eins vel og við kunnum, skera það burtu sem skipti okkur ekki máli og skipa því sess sem gerði það.
Ég hafði unnið við hönnun á Prefab húsnæði í Kaupmannahöfn í nokkur ár áður en við hófumst handa við húsið á Íslandi. Hugmyndafræðina tók ég með mér heim.
Húsið stendur á 400m2 stórri lóð og er hannað til að vera byggt í verksmiðju í tveimur stórum einingum, og einnig hannað þannig að hægt er að taka taka það upp og flytja á brott. Lóðina umhverfis húsið höfum við einnig gert þannig að auðvelt er að endurskapa hana, jafnvel á fljótandi pramma. Í raun væri því hægt að sigla húsinu og lóðinni í burtu. Eða endurreisa hvorutveggja einhversstaðar annarsstaðar.
Húsið sjálft er alfarið byggt úr timbri og stendur á steyptum kjallara. Það er umlukið stórbrotinni náttútu allan hringinn, og Ísafjarðarbæ á tvo vegu. Stórir glerfletir ramma landslagið inn og hleypa inn birtu og hita um leið og sólin fer að skína á ný.
Húsið er hannað þannig að við sem búum í því vitum alltaf af hverju öðru, án þess að verða fyrir ónæði. Stofa eldhús, vinnuherbergi og rýmin á efri hæðinni fléttast saman í opið rými með tvöfaldri lofthæð sem verður 6 metra há þar sem hún er hæst. Það var okkur mikilvægt að hafa allsstaðar útsýni til hafs, himins og fjalla, og meðal annars þess vegna ákváðum við að nota rennihurðir sem opna stóra fleti. Fremur en að nota hefðbundnar hurðir á lömum. Hjónaherbergið er á efri hæð, í opna háa rýminu, fyrir ofan stofuna og deilir hluta af stærstu gluggunum með henni.
Við höfum haft að leiðarljósi að gera lóðina okkar umhverfisvæna eftir fremsta megni. Við höfum gert í henni kleift að rækta matjurtir, búið til kerfi til að jarðgera matarúrganga, komið fyrir hænsnakofa gróðurhúsi og geymslum. Við höfum hugsað sem svo að ef þetta kerfi getur virkað norðan við 66° norður þá ætti þetta að geta virkað víða annarsstaðar.
Við höfum reynt að gera lóð og hús að einni samtvinnaðri heild, og þess vegna eru á jarðhæð hússins 5 dyr til að nýta og sinna mismunandi hlutum á lóðinni, svo sem að fara út með sorp og jarðgerðarefni, ná í egg til hænsnanna, mat í geymslurnar, færa hröfnunum að éta og njóta útiveru eftir því hvernig vindurinn blæs.